Fréttir2019-08-20T08:13:34+00:00

FRÉTTIR

Árgjald Lyfjaauðkennis fyrir árið 2021 – 10% lækkun frá fyrra ári

13.10.2020

Rekstur Lyfjaauðkennis er fjármagnaður með innheimtu árgjalda af markaðsleyfishöfum. Tekjur félagsins standa undir erlendum kostnaði til þjónustuaðila lyfjaauðkenniskerfisins og EMVO sem og öðrum lögboðnum verkefnum félagsins.

Rekstrakostnaður Lyfjaauðkennis er að stærstum hluta í erlendri mynt og því birtir félagið árgjaldið í evrum. Innlendum samningsaðilum verða sendir reikningar í íslenskum krónum miðað verður við gengi á útgáfudegi í byrjun árs 2021.

Árgjaldið getur tekið breytingum milli ára því það er háð áætluðum rekstrarkostnaði og fjölda samningsbundinna markaðsleyfishafa (MLH) með skráð mannalyf á Íslandi.

Nýverið tók stjórn Lyfjaauðkennis ákvörðun um árgjöld félagsins fyrir árið 2021. Árgjöldin lækka um 10% frá fyrra ári í evrum talið. Lækkunin er möguleg vegna lægri rekstrarkostnaðar lyfjaauðkenniskerfisins á næsta ári og þess að samningsbundnir markaðsleyfishafar eru fleiri er áætlanir gerðu ráð fyrir:

  • Fyrir MLH með ársveltu 2020 skv. IDM yfir 80,000 €* er árgjaldið 4.410 €
  • Fyrir MLH með ársveltu 2020 skv. IDM undir 80,000 €* er árgjaldið 1.350 €
  • Fyrir MLH með IDM ársveltu 2020 undir 16,000 €* er árgjaldið 405 €

* IDM ársvelta í EUR er reiknuð miðað við meðalgengi ársins 2020.

Ef óskað er nánari upplýsingar er bent á að senda fyrirspurn á netfangið info@lyfjaaudkenni.is.

Sumarleyfi hjá Lyfjaauðkenni

08.07.2020

Skrifstofa Lyfjaauðkennis verður lokuð frá 12.júlí til 4.ágúst vegna sumarleyfa.
Fyrir áríðandi erindi, vinsamlegast sendið textaskilaboð á símanúmer félagsins, 660 3707 eða sendið tölvupóst.
Vöktun viðvarana heldur áfram þó skrifstofan loki tímabundið.

Fyrirspurnir vegna viðvarana
T-póstur: alerts@lyfjaaudkenni.is

Aðrar fyrirspurnir og spurningar tæknilegs eðlis
T-póstur: info@lyfjaaudkenni.is
Heimasíða: https://lyfjaaudkenni.is/

Uppfærsla á lyfjaauðkenniskerfinu – R6.2.

30.04.2020

Næstu uppfærslu á lyfjaauðkenniskerfinu (NBS R6.2) verður ýtt úr vör þriðjudaginn 5.maí kl. 22. Ekki verður hægt að ná sambandi við kerfið  í þrjár til fjórar klst. meðan á uppfærslunni stendur.

Með breytingunni verða fleiri skýrslur gerðar aðgengilegar úr lyfjaauðkenniskerfinu fyrir lyfjastofnanir í Evrópu.

Að auki verður tækifærið notað til að framkvæma nokkrar minniháttar lagfæringar á kerfinu (bug-fixes) og þá verður jafnframt hætt stuðningi við úrelta öryggis-staðla (MS TLS 1.0 og TLS 1.1).

Kerfið styður eftir sem áður TLS 1.2, auk annarra nýrri staðla.

Aðalfundur Lyfjaauðkennis ehf. 2020

Aðalfundur Lyfjaauðkennis ehf. var haldinn föstudaginn 27. mars kl. 16. Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti að þessu sinni, en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Ný stjórn félagsins var kjörin á aðalfundinum til eins árs. Stjórninn er skipuð fjórum fulltrúum hluthafa og þar skal a.m.k. vera einn fulltrúi framleiðenda frumlyfja, einn fulltrúi samheitalyfja og einn fulltrúi samhliðainnflytjenda. Fulltrúar félagsmanna í stjórn (lyfjaheildsalar sameiginlega, lyfsalar sameiginlega og heilbrigðisstofnana sameiginlega) eru samtals þrír. Varamenn í stjórn eru valdir með sama hætti.

Stjórn Lyfjaauðkenni er nú skipuð eftirfarandi einstaklingum:

Aðalmenn f.h. hluthafa: Elísabet Tómasdóttir, Guðmundur Óskarsson, Unnur Björgvinsdóttir, Guðlaug Ingvarsdóttir. Aðalmenn f.h. félagsmanna: Sigurður Traustason, Hálfdan G. Gunnarsson og Hákon Steinsson. Varamenn f.h. hluthafa: Regína Hallgrímsdóttir, Jón Óskar Hinriksson, Sigrún Edwald, Yrsa Örk Þorsteinsdóttir. Varamenn f.h. félagsmanna: Þórbergur Egilsson, Ólafur Adolfsson og Arnþrúður Jónsdóttir.  Guðmundur Óskarsson var endurkjörinn formaður stjórnar félagsins.

Á fundinum þakkaði formaður félagsins fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Bessa Gíslasyni, Gylfa Rútssyni, Gunni Helgadóttur og Þórdísi Ólafsdóttur fyrir þeirra ómetanlega framlag við að koma íslenska lyfjaauðkenniskerfinu á fót.  Skýrslu formanns í heild sinni má finna hér.

Mælaborð lyfjaauðkenniskerfisins

Mælaborð lyfjaauðkenniskerfisins

03.02.2020

Notendum lyfjaauðkenniskerfisins gefst nú aðgangur að mælaborði sem veitir yfirlit yfir starfsemi kerfisins á Íslandi og ellefu öðrum löndum sem nota kerfi frá Solidsoft Reply. Mælaborðið vaktar með sjálfvirkum hætti þrettán mismunandi aðgerðir í lyfjaauðkenniskerfinu og sýnir niðurstöður tveggja síðustu aðgerða í vöktuninni.

Grænn litur hjá viðkomandi landi gefur til kynna að báðar aðgerðirnar hafi heppnast og að viðkomandi landskerfið starfi eðlilega. Gulur litur sýnir að önnur tveggja síðustu aðgerða hafi misheppnast og liturinn verður rauður ef hnökrar voru við framkvæmd beggja síðustu aðgerða.

Upplýsingarnar yfir starfsemi kerfisins í viðkomandi landi eru birtar á opnu vefsvæði (https://status.nmvo.eu/).

Lyfjaauðkenni vonast til að þessi nýjung veiti notendum gagnlega yfirsýn yfir virkni lyfjaauðkenniskerfisins.

 

Að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu

16-01-2020

Lyfjaauðkenni vekur athygli á þeirri skyldu aðila sem hafa leyfi til að afhenda almenningi lyf, að sannreyna öryggisþætti lyfjapakkningar fyrir afhendingu. Öryggisþættirnir eru annars vegar órofið innsigli og hins vegar að upplýsingar í tvívíðu strikamerki pakkningarinnar séu í samræmi við gögn sem framleiðandi lyfsins skráir inn í gagnagrunn lyfjaauðkenniskerfisins.

Notandinn skannar tvívíða strikamerkið og fær til baka staðfestingu frá lyfjaauðkenniskerfinu þess efnis að óhætt sé að afhenda lyfið. Sendi kerfið frá sér viðvörun, þarf að vera til staðar verklag fyrir meðhöndlun á slíku fráviki hjá notanda – sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Lyfjaauðkennis (https://lyfjaaudkenni.is/spurningar-svor/).

Lyfjaauðkenni veitir notanda aðgang að lyfjaauðkenniskerfinu honum að kostnaðarlausu. Til að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu þarf notandinn annað hvort sérsniðna lausn sem notar lyfjaafgreiðslu- og birgðahugbúnað sem er til staðar hjá notanda, eða hugbúnaðarlausn sem er algerlega óháð öðrum hugbúnaði notanda, svo kallað „stand-alone“ kerfi. Hið eina sem slíkar tengilausnir þarfnast er tenging við internetið og notkun á viðurkenndum netvafra s.s. MS Explorer, Chrome eða Firefox.

Sem dæmi um slíkar tengilausnir í áskriftarþjónustu eru medAspis, NMVS-Connect, Optel Group, Quick Pharm Solutions og Solidsoft Reply (VeriLite®).  Þessir aðilar innheimta mánaðarlegt áskriftargjald fyrir þjónustuna sem getur hlaupið frá kr. 1.400 til kr.4.500 – eða meira, allt eftir umfangi notkunar.

Nánari upplýsingar hjá Lyfjaauðkenni (info@lyfjaaudkenni.is).

 

Go to Top