Fölsuð lyf

 

Fölsuð lyf geta verið lífshættuleg. Sum innihalda eiturefni á meðan önnur eru lyfleysur og jafnvel finnast lyf sem innihalda virka lyfjaefnið en í of litlum eða of miklum mæli þannig að skaði getur hlotist af. Í ljósi mikilla gróðamöguleika og hversu einfalt það er í dag að framleiða töflur og umbúðir, fjölgar þeim ört sem fara út í framleiðslu á fölsuðum lyfjum. Til að blekkja kaupandann bæði hvað snertir útlit og áhrif eru í sumum tilfellum notuð efni eins og t.d. götumálning, gólflakk, koffein, amfetamín og morfín. Auðveldasta leiðin til að nálgast kaupendur er í gegnum netið og auðvelt er að láta freistast af miklu úrvali á hagstæðu verði, án nokkura skilyrða. Talið er að stór hluti þeirra lyfja sem seld eru í gegnum netið séu fölsuð og bjóða mörg ólögleg netapótek upp á margar ólíkar tegundir lyfja eins og t.d. stinningarlyf, grenningarlyf, fúkkalyf, krabbameinslyf og lyf gegn kólestróli. Evrópusambandið hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og segir ástandið langt umfram verstu hrakspár.

Heimild: http://www.falsanir.is/falsanir/fors_lyf. Sótt 7.nóvember 2017

 

Hvað eru fölsuð lyf?

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hafa fölsuð lyf verið skilgreind með eftirfarandi hætti: Falsað lyf er, vísvitandi og sviksamlega, ranglega merkt með tilliti til eiginleika og/eða uppruna. Bæði frumlyf og samheitalyf geta verið fölsuð. Falsað lyf getur verið með rétt eða rangt innihaldsefni, án virks efnis, með of litlu magni af virku efni eða í fölsuðum pakkningum.

Hvers vegna getur verið hættulegt að kaupa fölsuð lyf?

  • Sá sem kaupir fölsuð lyf veit ekki hvaðan þau koma, hvert innihaldið er né við hvaða aðstæður þau eru búin til.
  • Neysla falsaðra lyfja getur leitt til gagnlausrar meðferðar, óvæntra aukaverkana og jafnvel dauða.
  • Traust almennings á heilbrigðiskerfinu getur rýrnað við það að fölsuð lyf finnist eða séu notuð.

 Hvaða lyf geta verið fölsuð?

  • Bæði frumlyf og samheitalyf hafa orðið fyrir barðinu á fölsunum.
  • Allskonar lyf hafa verið fölsuð, allt frá ódýrum verkjalyfjum til lyfja við lífshættulegum sjúkdómum.

 Hvernig veit ég hvort lyf er falsað?

Fyrir almenning getur verið erfitt að greina hvort lyf er falsað og það sama á við jafnvel þótt um sérfræðing sé að ræða. Öruggasta leiðin til að forðast fölsuð lyf er að kaupa lyf í löglegri dreifingu, þ.e. í lyfjabúðum eða annars staðar, þar sem lyfjasala er heimiluð af yfirvöldum. Þá ber að varast að kaupa lyf á netinu nema að kaupandi geti gengið úr skugga um að seljandinn á bakvið vefsíðuna sé lögleg lyfjabúð með heimild til póst-/netverslunar í Evrópu. Sem dæmi um vísbendingar um að netsíður hafi ekki tilskilin leyfi til lyfjasölu í Evrópu má nefna eftirfarandi atriði:

  • Boðin eru til sölu lyf sem lyfseðilsskyld eru hér á landi án þess að farið sé fram á lyfseðil fyrir þeim. Almennt má reikna með að lyf sem eru lyfseðilsskyld hér á landi séu það einnig í öðrum Evrópuríkjum.
  • Nafn og heimilisfang lyfjabúðarinnar sem stendur að netversluninni kemur ekki fram.
  • Athugið að stundum er gefið upp „leyfisnúmer“. Þetta getur verið blekking.

 

 Hvar finnast fölsuð lyf?

Á undanförnum árum hefur magn falsaðra lyfja í umferð aukist víðast hvar í heiminum og þau finnast alls staðar. Meirihluta falsaðra lyfja er dreift fyrir utan hið löglega dreifingarkerfi lyfja og fer stór hluti sölunnar fram í gegnum internetið. Fölsuð lyf finnast þó einnig í löglegum dreifingarkeðjum margra landa en engin dæmi eru um það á Íslandi svo vitað sé. Því hefur verið haldið fram að allt að helmingur lyfja sem seld eru á netinu séu fölsuð. Þá má benda á að fundist hafa fæðubótarefni sem innihalda lyfjavirk efni án þess að það komi fram í innihaldslýsingu.

Heimild: http://www.falsanir.is/falsanir/lyf_qa. Sótt 7.nóvember 2017

Hvernig tekst tilskipun ESB/EES um varnir gegn fölsuðum lyfjum á við þessa ógn?

Til þess að koma í veg fyrir að fölsuð lyf berist til sjúklinga samþykkti þing Evrópusambandsins tilskipun árið 2011 (Falsified Medicines Directive (Directive 2011/62/EU), sem innleiðir skyldubundna og samræmda öryggisþætti á umbúðum allra lyfseðilsskyldra lyfja og stofnun lyfjaauðkenniskerfis sem nær yfir alla Evrópu. Þessir öryggisþættir eru tvívítt strikamerki (2D Barcode) sem inniheldur m.a. upplýsingar um einkvæmt auðkennisnúmer og jafnframt skal pakkningin vera innsigluð svo sjá megi hvort átt hefur verið við hana.

Starfsemi lyfjaauðkenniskerfisins er sinnt af evrópskri miðstöð, European Medicines Verification Organisation (EMVO) sem tengd verður við fjölda annarra landsgagnagrunna sem starfræktir verða í hverju aðildarríki. Í gegnum gagnageymslukerfið verður hægt að koma í veg fyrir að fölsuð lyf komist í dreifingu til sjúklinga og sannreyna upprunavottun lyfs frá framleiðanda til afgreiðslu, eða vottun frá uppruna til enda.