1.október 2019
Samkvæmt reglugerð nr. 140/2019 um öryggisþætti lyfja, skulu apótek, heilbrigðisstofnanir og lyfjaheildsölur eftir atvikum, athuga innsigli og skanna tvívíð strikamerki á lyfjapakkningum til að skoða eða breyta stöðu pakkningar í lyfjaauðkenniskerfinu fyrir afhendingu lyfs til sjúklings.
Í upphafi notkunar á lyfjaauðkenniskerfinu heimilaði Lyfjastofnun að afhenda mætti lyfjapakkningu þó svo að viðvörun bærist við skönnun hennar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Þessi heimild var veitt svo notendur gætu vanist notkun kerfisins og lært á virkni þess. Heimildin gilti til 30.september 2019 meðan aflað var reynslu af starfsemi kerfisins og þeim fjölda viðvarana sem það sendi frá sér.
Skönnun pakkningar kallar fram svar frá kerfinu sem er í samræmi við niðurstöðu samanburðar á skönnuðum upplýsingum og stöðu pakkningarinnar í kerfinu og einnig þeim gögnum sem framleiðandi lyfs hefur skráð inn í kerfið. Komi í ljós ósamræmi í þessum upplýsingum, þá sendir lyfjaauðkenniskerfið frá sér viðvörun. ATH! Viðvörun vegna lyfjapakkningar er ekki staðfesting á að lyf sé falsað!
Eftir 30. september þarf notandi að skrá viðvaranir frá lyfjaauðkenniskerfinu sem frávik og meðhöndla samkvæmt gæðahandbók notanda og viðeigandi verkferlar þurfa að vera til staðar til að tryggja rétt viðbrögð vegna hugsanlegrar fölsunar.