21.08.19

Lyfjaauðkenniskerfið hefur nú verið starfandi í rúmlega 6 mánuði. Fjöldi lyfjapakkninga í kerfinu eykst dag frá degi, gæði gagna fara batnandi og villum hjá notendum, s.s. vegna tví-skönnunar eða rangrar skönnunar á 2D-strikamerkjum, fer fækkandi.

Aðlögunartímabil fyrir notendur lyfjaauðkenniskerfisins gildir til 30. september. Það er mjög mikilvægt að framleiðendur og notendur kerfisins noti vel þennan tíma til að bæta enn frekar gæði gagna og sannreyni að skannar og tengdur hugbúnaður starfi rétt. Aðvaranir frá kerfinu sem rekja má til tæknilegra atriða eru hlutfallslega of margar og mikilvægt að allir leggist á eitt um að fækka þeim sem allra mest.

Algengustu villur við skönnun hjá notendum eru þær að það vantar bókstaf eða honum er breytt, t.d. úr hástaf í lágstaf og öfugt. Tákn í lotunúmeri s.s. bandstrik ( – ) virðast einnig valda vandkvæðum í sumum tilvikum. Allar þessar tegundir villna leiða til þess að pakkningin finnst ekki í kerfinu og það sendir aðvörun. Til að fækka þessum villum er mikilvægt að notendur og upplýsingatæknifyrirtæki gangi úr skugga um að skanni lesi rétt upplýsingar sem skráðar eru 2D-strikamerki lyfjapakkninga.

Lyfjaauðkenniskerfið notast við s.k. GS1 staðal hvað varðar samsetningu upplýsinga í 2D-strikamerkinu. Þennan staðal verða allir lyfjaframleiðendur að uppfylla sem setja lyf á markað í Evrópu. Þar kemur m.a. fram að:

  • Það er heimilt að nota bæði hástafi og lágstafi.
  • Það eru nokkrir bókstafir útilokaðir frá notkun vegna hættu á ruglingi við tölustafi: : i, j, l, o, q og u (I J L O Q U).
  • Raðnúmerið á annað hvort að innihalda hástafi eða lágstafi.
  • Það má nota tákn: / . ,- + * ) ( ‘ & % ” ! : ; < ? = > _

Þessar kröfur verða strikamerkjalesarar notenda kerfisins að geta ráðið við.

Hvað framleiðendur varðar, þá er mjög mikilvægt að þeir setji réttar upplýsingar í kerfið. Sérstaklega þurfa þeir að huga að eftirfarandi atriðum:

  • Upplýsingar um fyrningu: það verður að vera samræmi milli fyrningardagsetningar sem er prentuð á lyfjapakkningu og upplýsinga í 2D-strikamerki og í gagnagrunninum.
  • Ef pakkningin er fjöllandapakkning ætluð til markaðssetningar á fleiri en einum markaði, þá er mjög mikilvægt að setja upplýsingar um pakkninguna í landskerfi allra þeirra markaða sem eiga í hlut.
  • Það er góð venja að staðsetja ekki 2D-strikamerkið á sömu hlið pakkningar sem geymir eldra strikamerki (EAN-merki). Þetta dregur úr líkum á rangri skönnun og brenglun upplýsinga.

Lyfjaauðkenni leggur áherslu á að notendur nýti aðlögunartímann vel. Á komandi vikum munum við veita framleiðendum enn meira aðhald og reka eftir að þeirra gögn séu í lagi og jafnframt hafa samband við notendur þar sem koma aðvaranir vegna villu við skönnun pakkninga.

Það er mjög mikilvægt að starfsfólk fái þjálfun í skönnun pakkninga sem falla undir reglugerð um öryggisþætti. Hér má finna nánari upplýsingar um skönnun pakkninga.