22.04.2021

Nokkur tilvik um fölsuð COVID19 bóluefni hafa litið dagsins ljós erlendis. Fréttavefurinn Firstword Pharma greinir frá því að yfirvöld í Pólandi og Mexíkó hafi gert upptækar falsaðar pakkningar af bóluefni Pfizer/BioNtech og fréttir berast af svipuðum tilvikum frá Asíu. Það er mikil eftirspurn eftir COVID19 bóluefnum í heiminum, en ástæða þykir til að vara fólk við að kaupa bóluefni sem eru boðin til sölu á netinu. Þau eru að öllum líkindum fölsuð.

Fyrir COVID19 bóluefni, eins og önnur lyfseðilsskyld lyf, gilda þær reglur að framleiðandi setur á pakkningarnar sérstaka öryggisþætti sem skráðir eru í lyfjaauðkenniskerfi Evrópu. Íslenska lyfjaauðkenniskerfið er hluti þess Evrópska og meðal þess eftirlits sem fer fram við móttöku bóluefnanna hér á landi, er skoðun öryggisþáttanna og staðfestingar er aflað hjá lyfjaauðkenniskerfinu þess efnis að um ósviknar bóluefnapakkningar er að ræða. Með þessum hætti stuðlar lyfjaauðkenniskerfið að því að tryggja að fölsuð lyf og bóluefni komist ekki í umferð.