16-01-2020

Lyfjaauðkenni vekur athygli á þeirri skyldu aðila sem hafa leyfi til að afhenda almenningi lyf, að sannreyna öryggisþætti lyfjapakkningar fyrir afhendingu. Öryggisþættirnir eru annars vegar órofið innsigli og hins vegar að upplýsingar í tvívíðu strikamerki pakkningarinnar séu í samræmi við gögn sem framleiðandi lyfsins skráir inn í gagnagrunn lyfjaauðkenniskerfisins.

Notandinn skannar tvívíða strikamerkið og fær til baka staðfestingu frá lyfjaauðkenniskerfinu þess efnis að óhætt sé að afhenda lyfið. Sendi kerfið frá sér viðvörun, þarf að vera til staðar verklag fyrir meðhöndlun á slíku fráviki hjá notanda – sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Lyfjaauðkennis (https://lyfjaaudkenni.is/spurningar-svor/).

Lyfjaauðkenni veitir notanda aðgang að lyfjaauðkenniskerfinu honum að kostnaðarlausu. Til að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu þarf notandinn annað hvort sérsniðna lausn sem notar lyfjaafgreiðslu- og birgðahugbúnað sem er til staðar hjá notanda, eða hugbúnaðarlausn sem er algerlega óháð öðrum hugbúnaði notanda, svo kallað „stand-alone“ kerfi. Hið eina sem slíkar tengilausnir þarfnast er tenging við internetið og notkun á viðurkenndum netvafra s.s. MS Explorer, Chrome eða Firefox.

Sem dæmi um slíkar tengilausnir í áskriftarþjónustu eru medAspis, NMVS-Connect, Optel Group, Quick Pharm Solutions og Solidsoft Reply (VeriLite®).  Þessir aðilar innheimta mánaðarlegt áskriftargjald fyrir þjónustuna sem getur hlaupið frá kr. 1.400 til kr.4.500 – eða meira, allt eftir umfangi notkunar.

Nánari upplýsingar hjá Lyfjaauðkenni (info@lyfjaaudkenni.is).