FRÉTTIR
Lyfjaauðkenni þátttakandi í fyrstu notendaprófun á Evrópska lyfjaauðkenniskerfinu
24/01/2018
Það er okkur gleðiefni að tilkynna að fyrsta notendaprófun á lyfjaauðkenniskerfi Solidsoft Reply hefur farið fram og stóðs kerfið prófunina.
Prófunin fór fram í Slóveníu, en niðurstöður hennar gilda einnig fyrir önnur lönd sem nota kerfið frá Solidsoft Reply, þ.e.a.s. Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Írland, Litáen, Búlgaríu, Króatíu og Tékkland. Þetta er í fyrsta skipti sem Evrópska lyfjaauðkenniskerfið hefur verið prófað með þessum hætti og þannig markar þessi áfangi tímamót í þessu verkefni fyrir Evrópu.
Við framkvæmd prófunarinn skönnuðu apóteks- og heildsölukerfi pakkningaupplýsingar með einkvæmu auðkennisnúmeri og tvívíðu strikamerki frá J&J og Krka, sem þessir framleiðendur höfðu sett inn í Evrópsku gagnamiðstöðina fyrir þessa prófun.
Auk fulltrúa frá Solidsoft Reply og þeirra ríkja sem nota þeirra kerfi, voru fulltrúar frá EMVO og Slóvenskum apótekum og heildsölum viðstaddir prófunina.
Vinnustofa Lyfjaauðkennis og Solidsoft Reply
Mánudaginn 11.desember var haldin vinnustofa Lyfjaauðkennis og Solidsoft Reply fyrir upplýsingatæknifyrirtæki.
Tveir sérfræðingar frá Solidsoft héldu námskeiðið og stóð dagskrá yfir frá kl. 9 til 16.
Á námskeiðið mættu fulltrúar og hugbúnaðarsérfræðingar frá Advania, Delfi, dk Hugbúnaði, Landspítala, LS Retail, Lyf og heilsu, Lyfjaveri, Nobex, Parlogis, Strikamerki, TM Software og Veritas/Distica, alls 21 þátttakandi.
Í kjölfar vinnustofunnar fá þessir aðilar aðgang að tæknilegu þróunarumhverfi SSR og geta hafist handa við þróun hugbúnaðarlausna sem tengja innlenda notendur við lyfjaauðkenniskerfið. Ráðgert er að hefja fyrstu prófanir (pilot) í mars á næsta ári og vonandi verða einhverjir þátttakendanna þá tilbúnir með hugbúnað til prófunar.
Fyrsta málþing Lyfjaauðkennis
30. nóvember 2017
Fyrsta málþing á vegum Lyfjaauðkennis var haldið miðvikudaginn 29.nóvember. Málþingið var mjög vel sótt, en alls mættu um 80 þátttakendur víðsvegar að, bæði frá lyfjaframleiðendum og fulltrúum þeirra hér á landi, apótekum, heildsölum, sjúkrahúsum, Lyfjastofnun og upplýsingatækni-fyrirtækjum.
Málþingið fór fram í húsakynnum Vistor hf og bauð fyrirtækið jafnframt upp á léttar veitingar fyrir fund.
Dagskrá þingsins má nálgast hér og allar kynningar málþingsins hér.
Lyfjaauðkenni semur við Solidsoft Reply
29. nóvember 2017
Lyfjaauðkenni ehf hefur undirritað samning við Solidsoft Reply um uppsetningu og rekstur lyfjaauðkenniskerfis fyrir Ísland. Jafnframt er Ísland orðið aðili að samstarfsvettvangi annarra landa sem gert hafa samning við Solidsoft, s.s. Svíþjóðar og Danmerkur, sem nýtast mun vel í þessu verkefni.
Fyrir hönd Lyfjaauðkennis ehf undirrituðu samninginn fulltrúar hlutafa í stjórn félagsins, þau Guðmundur Óskarsson frá Alvogen/Alvotech, Þórdís Ólafsdóttir frá Actavis, Bessi Jóhannesson frá Icepharma og Gunnur Helgadóttir frá Vistor.
Fram undan er vinnustofa með innlendum upplýsingatæknifyrirtækjum sem þjónusta apótek, heildsölur og heilbrigðisstofnanir, en þetta er mikilvægt fyrsta skref við undirbúning þessara aðila við að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu. Vinnustofan verður haldin 11.desember nk. í húsnæði Félags atvinnurekenda í Kringlunni 7. Skráning er nauðsynleg gegnum info@lyfjaaudkennis.is.
Leiðbeiningar til framleiðanda
18. október 2017
The European Medicines Verification Organisation (EMVO) hefur gefið út leiðbeiningar til framleiðenda um hvernig tengingu við Evrópska lyfjaauðkenniskerfið skuli háttað. Sjá nánar á vefsíðu EMVO.